- Nánar
- Skoðað: 3710
Aðalfundur FKM var haldinn kl. 10:00 þann 16. mars 2019 og voru 28 félagar mættir auk umboða sem stjórnin hafði frá stjórnarmönnum sem ekki gátu mætt. Fundurinn fór fram samkvæmt hefðbundinni dagskrá og lauk kl. 11:30.
Stjórnin var endurkjörinn og heldur því áfram óbreytt næsta starfsárið. Lagabreytingar voru lagðar fyrir fundinn og samþykktar einróma, farið yfir reikninga FKM og BIMS ehf og tilurð BIMS útskýrð fyrir félagsmönnum. Undir liðnum önnur mál voru kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir vegna endurnýjunar og stækkunar á skýli 3 sem hefur í för með sér stækkun og endurbætur á klúbbhúsinu í leiðinni. Fundargerð fundarins má finna í heild sinni með því að smella hér.
Einnig var rætt um að vera með fræðslufund í maí, þar sem farið verður yfir helstu öryggis og umferðarmál á Tungubökkum auk þess sem kynnt verður nýtt útlit á bókunarsíðu klúbbvélarinnar (goboko), en sú síða hefur fengið algerlega nýtt útlit auk þess sem ýmislegt nýtt er þar að finna.
- Nánar
- Skoðað: 3957
Wings´n Wheels hátíðin á Tungubökkum er árviss viðburður hjá Flugklúbbi Mosfellsbæjar og hefur aðsókn farið stigvaxandi með hverju ári. Að þessu sinni má með sanni segja að aðsókn hafi farið fram úr öllum spám. Gestir sýningarinnar skiptu þúsundum enda var veður sérlega gott og mikið af fallegum munum til sýnis sem áhugasamir fornbílaunnendur, dráttarvélaunnendur og flugvélaunnendur gátu borið augum. Þristurinn (Páll Sveinsson) leit við og flaug yfir völlin nokkrar ferðir, Rússneskar Yak vélar sýndu listflug og karmellukastið fræga var á sínum stað svo eitthvað sé nefnt. Það er skemmtilegt frá að segja að forsetinn okkar Guðni Th Jóhannesson sá ástæðu til að heimsækja okkur að þessu sinni og skellti sér í flugtúr. Hér fylgja örfáar myndir frá hátíðinni.
- Nánar
- Skoðað: 8158
Fallinn er frá góður félagi, Otto Tynes. Fyrsta starf Otto í flugi var sem siglingarfræðingur um borð í flugvélum Loftleiða frá árinu 1964 og var hann samfellt á flugi það sem eftir var starfsæfinnar sem siglingarfræðingur, flugmaður og flugstjóri. Auk þess að vinna við flug alla sína starfsæfi, hafði Otto ódrepandi áhuga á grasrót flugsins og vildi veg einkaflugs á Íslandi sem mestan. Hann stundaði kennslu í bóklegum greinum til einka- og atvinnuflugs til fjölda ára og eru þeir ófáir flugmennirnir sem setið hafa námsskeið hjá Otto og að sjálfsögðu var siglingarfræði hans aðal fag þó svo að hann hafi verið jafnvígur á flest. Otto hafði einstakt lag á að gera siglingarfræðina að áhugaverðu námsefni og flugu oft reynslu sögur með. Auk þess að kenna á grunnnámsskeiðum hélt Otto fjöldamörg upprifjunarnámsskeið í bóklegumfræðum fyrir einkaflugmenn sem oft á tíðum voru unnin í sjálfboðavinnu fyrir flugklúbbana út um allt land.
Ekki er hægt að minnast Otto nema Piper Cub flugvélar komi upp í hugann, en segja má, að ef maður sá Otto á einhverjum flugvelli þá var Piper Cub ekki langt undan. Upphafið að áhuga hans á þessari flugvélartegund er vafalítið að finna í þeirri staðreynd að hann lærði að fljúga á slíkar flugvélar. Árið 1987 var hann einn af lykilmönnum í stofnun flugklúbbsins Þyts og að sjálfsögðu var fyrsta flugvél hins nýja klúbbs Piper Cub TF-KAO. Um svipað leiti varð Otto virkur félagi í Flugklúbbi Mosfellssveitar (FKM) eins og klúbburinn hét þá. Síðar átti hann eftir að gegna stöðu formanns klúbbsins í tvö kjörtímabil við góðan orðstír. Í gegnum árin hefur Otto tekið þátt í fjölda mörgum viðburðum og skemmtunum á vegum klúbbsins og ljúfari og þægilegri félaga er vart hægt að hugsa sér.
Sitt síðasta flug á atvinnuflugvél fór Otto á Twin Otter flugvél Flugfélags Íslands og lenti þá á Tungubökkum og er það stærsta flugvél sem lent hefur á flugvelli FKM.
Eftir starfslokin snéri Otto sér að hugðarefni sínu – Piper Cub. Hann safnaði 15 manna hópi sem samanstóð að mestu af “öldungum” í fluginu og keypti fyrstu Piper Cub flugvélina sem flutt var til landsins, TF-KAK, og úr varð flugklúbburinn KAKan. Þessa flugvél gerðu þeir upp í betra en nýtt ástand í skýli á Tungubökkum og var fyrsta flugið að aflokinni uppgerð farið í janúar 2011 og fékk flugvélin við það tækifæri nafnið Otto Tynes.
Frá upphafi flugklúbbsins KAKan hafa þessir öðlingar mætt eitt kvöld í viku niður á flugvöll til að spjalla og þrátt fyrir langvarandi veikindi lét Otto sig ekki vanta ef nokkur leið var að komast út úr húsi.
Við kveðjum nú mikinn flugáhugamann, ljúfmenni og góðan félaga. Hvíl í friði.
Stjórn FKM